— Halló, er þetta vinalínan?
— Já, hvað viltu tala um?
— Ég er að hugsa um að fremja sjálfsmorð.
— Bíddu, ekki leggja á. Haraldur!
Haraldur, kemur í flýti út af salerninu:
— O bölvað! Maður getur ekki einu sinni pissað í friði. Aftur einhver nörri sem er orðinn leiður á lífinu… Halló, talaðu! Fjandinn, hann hefur skellt á…
Ég stóð fyrir framan dyr og horfði hugsandi á grænleita plötu á hurðinni. Hún var mjög óvenjuleg:
Auk þess, mátti sjá á plötunni merki um hrákaslettur, uppþornaðar. Filip hafði sagt að þetta væri maðurinn sem aðstoðaði fólk við sjálfsmorð. Að lokum ákvað ég að banka, en í því opnuðust dyrnar og tyrðilslegur maður, í lélegum gráum fötum og rakst næstum á mig.
— Hörður?
Smávaxni maðurinn, sem virtist brugðið, kinkaði kolli, leit á úrið sitt.
— Ætlar þú að hitta Hörð? — spurði hann hræðslulega og gaf mér hornauga.
— Já ég er vinur Filips ferlega og hann gaf mér þetta heimilisfang.
— Ah, Filip ferlegi! — hann strauk yfir leifarnar af hári sínu, á öxlum hans var flasa í kílóavís.
— Svo þú ert í bransanum? Ég er Hörður. Gjörðu svo vel, komdu inn.
Herbergið var tómt fyrir utan gamalt eikarborð, á yfirborði þess mátti sjá leifar af tyggjói, kaffibletti og þrjá óhrjálega stóla. Á einum stólanna var einmana Underwood ritvél, svo gömul að hún átti helst heima á safni. Í horninu stóð ruslafata. Hörður ruggaði stólnum sem ískraði ógnandi, en ég lét það ekki trufla mig og stóð kyrr.
— Jæja?, — hann reyndi að brosa uppörvandi.
— Ég heiti Tryggvi Benediktsson.
— Og þú vilt…?
— Ég vil láta fremja sjálfsmorð, — sagði ég milli samanbitinna vara, dapurlegur á svip og burstaði kusk kæruleysislega af 60 þúsund krona jakka mínum.
— Hvern?
— Mig sjálfan náttúrulega.
— Þú hefur komið á rétta staðinn! — Hörður spratt á fætur, hljóp kringum borðið og settist aftur. — Ég er einn mesti sérfræðingurinn í borginni í felo-de-se, ég hef lesið allar bækur sem til eru um sjálfsmorð, sjálfsmorð er mitt annað nafn!
Hann belgdist út af sjálfsánægju og glotti við tönn svo skein í skemmdar tennurnar.
— Hvað mun það kosta? — ég gat varla setið á mér að geispa eins og ég bjóst við, horfði Hörður ágirndaraugum á fötin mín.
— 100 þúsund krónur, — sagði hann blygðunarlaust og án þess að blikna. — Plús 20 þúsund krónur í tilheyrandi pappírsvinnu og 50 þúsund krónur í greftrunarkostnað. Eftirmæli og sending hamingjuóska, afsakið, boðskort eru algerlega að kostnaðarlausu.
— Það allt saman er óþarfi, — ég tók fram veskið, taldi taldi hundrað þúsund kall upp úr veskinu og rétti honum, hann starði á peningana eins og banhungruð kyrkislanga á feita kanínu. — Hvar eigum við að byrja?
— Aðeins eitt formsatriði, — Hörður lagði hreint pappírsblað og penna á borðið. — Skrifaðu: “Ekki skal saka neinn um dauða minn.”
— Gjörðu svo vel að endurtaka, — ég hætti á að setjast á valtan stól.
— Einhvers staðar ég átti frummyndina, — Hörður leitaði í skrifborðsskúffunum með miklum gauragangi, en fann ekkert. — Gleymdu ekki undirskrift og dagsetningu.
Allt að einu, var sjálfsmorðsbréfið skrifað og ég stakk því í veskið mitt.
— Já… — Hörður neri ánægður saman höndunum. — Og hvers konar dauðaga kýstu, Tryggvi?
— Mér er sama.
— Bíddu þá áðeins!
Hann rétti mér gagnsætt glas með töflum.
— Hvað er þetta?
— Þú tekur allar tíu í kvöld, fyrir svefninn, sem mun leiða þig í þægilegt, sársaukalaust ferðalag yfir í annan heim.
Ég varð svolítið vonsvikinn. En ég var búinn að borga, svo ég kvaddi og fór heim.
Klukkan níu um kvöldið horfði ég á sólsetrið út um gluggann, fór svo í sturtu, rakaði mig og burstaði tennurnar. Gleypti síðan töflurnar tíu eina af annarri og tók á mig náðir með hreina samvisku. Sjálfsmorðsbréfið var fest á skrifborðið á áberandi stað.
Ég vaknaði eftir tvo tíma í níunda víti Dantes — ég ætlaði að æla lifur og lungum, ég hafði ekki einu sinni tíma til að hlaupa á baðherbergið. Þegar hlé varð á uppköstunum, drakk ég vatn úr krananum, en ældi áfram af og til, en afgang nætur dvaldi ég á sófanum í stofunni.
* * *
Ég braust inn í skrifstofu Harðar eins og stormur! Ég bölvaði honum í sand og ösku. Hann deplaði augunum, móðgaður og þegar blótsyrðaflaumur minn rann til þurrðar, skrækti hann:
— Svo þér hefur mistekist?
— Eins og þú sérð… JÁ, kvikindið þitt! Komdu með peningana, ég finn annan sérfræðing og tilkynni þig til lögreglunnar!
Áður en ég gat klárað féll Hörður á kné og faðmaði mig.
— Fyrirgefðu, Tryggvi! Ég gleymdi að athuga hvenær lyfið rynni út, svei mér þá! Leyfðu mér að bæta um betur, áður en 10 tímar eru liðnir verðurðu dáinn á besta hugsanlega hátt!
Ég horfði ofan á skallann á honum og fann mig knúinn til að aumka mig yfir hann.
— Stattu upp, Hörður, ég gef þér eitt tækifæri enn. Hvað leggurðu þá til?
* * *
Hörður fyllti baðkerið með heitu vatni, athugaði hitastigið og sneri sér að mér með skökku brosi.
— Þú átt ekki slæma íbúð, Tryggvi, — Hörður horfði í kringum sig með velþóknun. — Háttaðu þig nú og farðu í baðið og skerðu þig. Bíddu!
Hann rétti mér nýjan pakka af Gillette rakblöðum. Ég byrjaði að losa um efstu skyrtutöluna og spurði:
— Á ég að hátta mig í viðurvist þinni?
Hörður deplaði augum, gekk síðan út og spurði gegnum hurðina:
— Ertu háttaður?
Ég háttaði mig og lagði fötin snyrtilega á gólfið. Vatnið var sjóðheitt og mig sundlaði. Ég tók sleipt rakblaðið og hóf þessa kvalafullu hræðilegu aðgerð. Vatnið varð fljótt rautt, og ég missti meðvitund…
* * *
Ég rankaði við mér þegar vatnið kólnaði og mér var orðið ískalt. Ég opnaði augun og varð aðeins bumbult af andstyggilega rauðum lit vatnsins. Ég var enn á lífi!
* * *
— Hörður, fífl! — það lá nærri, að hurðin með nafnspjaldinu á hvolfi, rétt hengi á hjörunum eftir að ég hafði sparkað henni upp.
Hann hrökk við og höfuð hans kipptist til.
— Aumingi! Fábjáni! — veinaði hann. — Hvernig skarstu æðina?!
Ég róaðist aðeins og sýndi honum hvernig.
— Afturúrkreistingur! — æpti hann. — Það á að skera eftir æðunum! Ekki þvert, heldur endilangt! Endilangt, ekki þvert!
— Fyrirgefðu, Hörður, ég vissi það ekki…
Hann spratt á fætur.
— Farðu, ég geri þetta sjálfur fyrir þig.
Ég kipptist við.
— Þess þarf ekki, Hörður. Þetta er afar kvalafullt. Hugsaðu upp annars konar felo-de-se fyrir mig.
Hann hugsaði sig um svolitla stund.
— Bíddu! — í höndum hans var venjulegt band með lykkju.
* * *
— Þetta er eins og að drekka vatn.
Hörður útskýrði fyrir mér í stuttu máli undirstöðuatriði hengingarkenningarinnar. Ég smeygði höfðinu í lykkjuna og stóð hreyfingarlaus.
— Þarf ég bara að hoppa niður? — spurði ég fávíslega.
— Já. Eins og tvisvar tveir.
Ég hoppaði niður af stólnum… Þetta var svolítið sársaukafullt, en kvalafyllra var að falla á steingólfið, ég fann til í spjaldhryggnum. Hörður starði kringlóttum augum á dinglandi slitinn bandsspotta.
— Heyrðu, Tryggvi… Ertu ekki að grínast?
Ég stundi, másaði og hóstaði. Ég var enn á lífi. Ég hafði ekki orku til að skamma þennan fáráðling, hann Hörð.
* * *
Við stóðum efst í Hallgrímskirkjuturni og horfðum niður, lykkjan hékk ennþá um hálsinn á mér eins og hvert annað slifsi. Mér líkaði þessi aðferð ekki heldur.
— Þarf ég bara að taka skref, Hörður?
— Já-já, — muldraði hann í skyndi. — Taktu skref.
Ég leit aftur niður á mannlífið sem var eins og iðandi mauraþúfa. Hörður hoppaði upp í gluggakistu eins útsýnisgluggans og stóð þar óttalaus og blístraði eitthvað falskt og pirrandi stef.
— Taktu skref, Tryggvi, taktu skref! — söng hann. Skyndilega skrikaði honum fótur á blautu dúfnadriti, hann baðaði út höndum og féll niður, daufur dynkur barst upp til mín er hann lenti. Ég horfði á svipbrigði hans í fallinu, sem tók bara nokkrar sekúndur, en virtist vera honum heil eilífð. Að minnsta kosti, fannst mér það.
Ég losaði lykkjuna af hálsinum og fleygði henni á eftir Herði. Kannski gat ég þakkað honum eitthvað. Ég snerist á hæli og fór heim, í dag var síðasti frídagurinn minn.
janúar 2006
Þýtt af Halldóru Traustadóttur og Tim Stridmann